Hér er hægt að líta yfir það helsta sem gerðist árið 2001 og var fjallað um hér á heimasíðunni.
Þytsmenn hittast á
Hamranesi á Gamlársdag kl. 12:00-14:00
Eins og undanfarin ár hittast Þytsmenn á Hamranesi á Gamlársdag og
fá sér kaffi (og fljúga ef veður verður gott). Gert er áð fyrir tímanum
12:00-14:00 og að menn taki með sér kaffibrúsa og jafnvel rakettur.
Fundur 20. desember kl 20:00
í Garðaskóla
Síðasti félagsfundur flugmódelfélagsins Þyts á árinu 2001 verður
í Garðaskóla Garðabæ fimmtudaginn 20. desember kl. 20:00.
1. Þytur
komi að leigumálum varðandi smíðaaðstöðu í Hafnarfirði.
2. Hvað
er öðruvísi þegar smíðuð eru stærri flugmódel?
3.
Kynntur flugmódelfundur sem verður 10. janúar
4. Önnur mál
Við hvetjum félagsmenn til að mæta.
Stjórnin
Fimmtudagsfundi
flugmódelfélagsins frestað um enn eina viku til 20. desember kl. 20:00 í
Garðaskóla
Fresta verður fimmtudagsfundi Þyts
(jólafundi) um enn eina viku eða til 20. desember kl. 20:00 af
óviðráðanlegum ástæðum. Dagskrá verður auglýst síðar.
Fimmtudagsfundi
flugmódelfélagsins Þyts frestað um eina viku til 13. desember kl. 20:00 í
Garðaskóla
Fresta verður fimmtudagsfundi Þyts
(jólafundi) um eina viku til 13. desember kl. 20:00 vegna upplýsingafundar sem
verður haldinn í salnum í Garðaskóla fimmtudaginn 6. desember. Dagskrá
fundarins verður auglýst síðar.
Aðalfundur
Flugmódelfélagsins Þyts haldinn 1. nóvember
31. aðalfundur Flugmódelfélagsins Þyts var haldinn í Garðaskóla fimmtudaginn 1. nóvember 2001. Í ársskýrslu Guðmundar G. Kristinssonar kom fram að mikil fjölgun nýliða hefur orðið á starfsárinu og eru um 30% félagsgjalda á árinu frá nýjum félagsmönnum. Á næstu árum þarf að undirbúa nýja staðsetningu undir flugvöll og félagsaðstöðu eftir 7-8 ár þar sem samkvæmt aðalskipulagi Hafnarfjarðar á að rísa íbúabyggð á núverandi svæði.Listflugskeppnir eru aftur komnar inn á dagskrá, en haldnir voru nokkrir kennslufundir og tvær keppnir í listflugi á árinu. Árshátíð félagsins var haldin með pomp og pragt 17. mars í vor. Nýjar öryggisreglur á Hamranesi voru samþykktar í kjölfar þeirra miklu fjölgunar félagsmanna sem orðið hefur. Guðmundur G. Kristinssson formaður kynnti í haust tvo nýja kennslubæklinga sem hann hefur þýtt frá Bandaríkjum, annan fyrir byrjendur í módelflugi og hinn fyrir leiðbeinendur í módelflugi. Lagðir voru fram reikningar félagsins og var hagnaður af rekstri ársins kr. 51529. Samþykkt var á fundinum ný útfærsla á félagsgjöldum og þau lækkuð frá því á árinu á undan. Almennt gjald verður kr. 9000, utanbæjargjald og nýliðagjald verður kr. 6000 og gjald fyrir 15 ára og yngri og félagsmenn án flugaðildar kr. 3000 á ári. Einnig var samþykkt að 67 ára og eldri greiddu kr. 3000 fyrir fulla aðild með flugheimild. Samþykkt var að setja inn viðbót í öryggisreglur: Flugmenn leitist til að botngefa ekki eða stilla mótora í"pyttinum". Drepa skal á mótor áður en komið er frá flugvelli inn í "pyttinn". Tveir í stjórn voru samkvæmt lögum lausir, Steinþór Agnarsson og Jón Erlendsson. Þeir gáfu báðir kost á sér aftur í stjórn og voru endirkjörnir með lófaklappi. Í mótanefnd voru kjörnir: Pétur Hjálmarsson formaður, Birgir Sigurðsson, Stefán Sæmundsson, Frímann Frímannsson, Hannes S. Kristinsson, Björn Elvar Sigmarsson og Ómar. Í Flugvallarnefnd voru kjörnir Jón Erlendsson formaður, Erlendur, Sigurgeir og Árni Jóhannsson. Í ritnefnd voru kjörnir Arnar B. Vignisson formaður, Guðmundur G. Kristinsson, Ágúst Bjarnason og Kristján Antonsson. Í nýliðanefnd voru kjörnir: Guðmundur G. Kristinsson formaður, Björn Elvar Sigmarsson, Erling Jóhannsson og Guðbjartur.
Bíósalur,
Hótel Loftleiðir - 08/11/2001- 19:30 GT
Lokið er við að
búa til myndband um flugsýninguna sem haldin var á Reykjavíkurflugvelli
þann 23 ágúst 1986 og verður frumsýning þess að Hótel
Loftleiðum fimmtudaginn 8 nóvember n.k. kl. 19:30. Allir
flugmenn og gestir þeirra eru velkomnir meðan húsrúm leyfir, en
eftir sýninguna verða veitingar og spjall að hætti flugmanna.
Vinnudagur laugardaginn 27. október
Sælir félagar. -
Það er búið að
setja næsta laugardag sem smá vinnudag á Hamranesi og gott væri að fá sem
flesta til að hjálpa, því þá geta menn líka mætt með módelin og
flogið. Það sem verður gert er meðal annars :
Girðingin umhverfis völlinn, ljósavélinn, frágangur
fyrir veturinn, og ýmislegt smotterí. Vonandi geta sem flestir séð sér
fært að mæta og endilega gefið mér hugmynd um fjölda með því að senda
póst á listann heli@islandia.is . Einnig
ef þið vitið um eitthvað sem þarf að gera eða þið viljið endilega gera
sjálfir, látið mig þá vita. Erlendur sendi
mér fínan lista með atriðum sem ég vissi ekki um eða var búinn að
gleyma, mjög gott.
Bestu kveðjur, Jón Erlends
Aðalfundur 1. nóvember í
Garðaskóla kl. 20:00
31.
aðalfundur Flugmódelfélagsins Þyts
kl. 20:00
í Garðaskóla í Garðabæ.
Dagskrá
aðalfundar
1.
Skýrsla formanns um störf félagsins á liðnu starfsári.
2. Reikningar
lagðir fram til samþykktar
3. Fjárhagsáætlun
og ákvörðun félagsgjalda.
4. Skýrslur
nefnda.
Kaffihlé:
5.
Kosning formanns samkvæmt ákvæðum 7.gr.
6. Kosning
ritara, gjaldkera og meðstjórnenda samkvæmt ákvæðum 7.gr.
7. Kosning
endurskoðenda.
8. Kosning
í nefndir
9. Tillögur
og lagabreytingar
10.Önnur mál
Fundarstjóri verður
Kristján Antonsson
Mikið flogið
síðustu vikur og margar nýjar vélar komnar í loftið
Undanfarnar tvær vikur hefur verið
flogið nánast alla daga í bíðskaparveðri. Þetta hófst sunnudaginn 13.
október og í vikunni þar á eftir var flogið flesta virka daga. Um helgina
20.-21. október var svo mikið flogið að báðadagana voru stanslaust 2-5
vélar í loftinu og oft biðröð í lendingar og flugtök. Margir komu með
sínar gömlu vélar, aðrir með nýjar/gamlar frá öðrum og enn aðrir með
nýjar vélar. Ein sú nýjasta er PT 19 sem Sigurgeir fjárfesti nýlega í og
er gríðarlega falleg í loftinu. Friðrik hefur flogið nýrri og fallegri
Extru með Zenoa 38 og einnig Giles með 150 fjórgengismótor, Guðmundur
G.Kristinsson setti Champion með 46 mótor í loftið (vélim sem krassaði
fyrir tveimur árum), Skjöldur mætti loksins með Ryan og er hún ein
fallegasta vélin í loftinu sem sét hefur í sumar og Marteinn og Róbert
settu tvo nýja Piper Cub með 46 mótor í lofti og eru farnir að fljúga án
aðstoðar og gengur vel. Sigurður Kristjánsson hefur verið að fljúga
Majestic sem er gríðarlega falleg listflugvél og hann er sá eini sem sést
hefur fljúga rúllandi hring með tilþrifum.
Um 40 manns mætti á fyrsta félagsfund vetrarins
Mjög margir voru mættir á þennan fyrsta fund vetrarins. Í nýliðakennslu
lagði Guðmundur G. Kristinsson fram tvo nýja kennslubæklinga sem hann hefur
þýtt frá Bandaríkunum. Þetta er annarsvegar Leiðbeiningar fyrir
byrjendur í módelflugi og hins vegar Leiðbeiningar fyrir kennara í
módelflugi. Þessir bæklingar verða seldir hjá Þresti á vegum Þyts og
var þessu framtaki vel tekið. Ákveðið var að koma upp 8-10 manna
hópi kennara í módelflugi fyrir næsta vor. Mikið var rætt um öryggismál
á Hamranesi og samþykktar voru nokkrar breytingar á öryggisreglum varðandi
flug á Hamranesi. Stærsta breytingin er líklega sú að hætta að
nota rauðu þríhyrningana á tíðnitöflunni og flugmenn framvegis klemmi
sín félagsskýrteini á viðkomndi tíðnipinna. Taka þarf
tíðnitöfluna og endurbæta og setja upp á hana öryggisreglur og skillti sem
banni gestum að fara inn á flugsvæði. Athuga þarf með lausn á flugi gesta
á svæðinu. Héðan í frá er stranglega bannað að fljúga nema
skýrteini viðkamndi flugmanns sé á töflunni. Samþykkt var að færa
stöðvunarlínu á aðkeyrslubraut aftar. Ágúst kynnti niðurstöður fundar
með skipulagsstjóra Hafnarfjarðarbæjar og við höfum okkar svæði líklega
aðeins 5-8 ára og verðum því að fara að leita að öðrum stað. Lögð
var inn beiðni um að fá svæði rétt sunnan við núverandi svæði.
Kristján kynnti lækkun á gjaldi til Flugmálafélags Íslands úr kr. 750
í kr. 500 afturvirkt um tvö ár. Þytur er því búinn að greiða fyrir
næstu tvö ár. Björgúlfur gefur ekki kost á sér aftur sem fulltrúi
flugmódelmanna hjá FMÍ og verðum á aðalfundi að finna nýjan fulltrúa í
samráði við Flugmódelfélag Akureyrar. Vel var tekið í tillögur um lækkun
félagsgjalda í kr. 9000 á ári, utanbæjargjald kr. 6000 á ári og aðild
án flugleyfis kr. 3000 á ári. Flestir töldu að malbika þyrfti
flugbrautir áður en fari væri að eyða peningum í rafmagn í flugstöð. Tveir
fulltrúar eru lausir í stjórnarkjöri á aðalfundi sem verður þann 1.
nóvember n.k. Hugmyndir um fræðslu á vetrarfundum voru t.d. fjarstýringar
(PPC, PCM, ABC, Dual Conversion og fl.), frágangur stjórntækja og mótórs í
stærri módelum, módelfund (allir komi með módel), rafmagnsflugvélar,
þyrlur og fá gesti eins og Magnús Norðdal, flugmálastjóra, svifflugmen
eða aðra.
Fyrsti félagsfundur vetrarins verður
fimmtudaginn 4. október kl. 20:00 í Garðaskóla Garðabæ
Vetrarstarfið fer nú af stað og fyrsti fundur vetrarins verður í
Garðaskóla fimmtudaginn 4. október kl. 20:00. Fjallað verður um fjölbreytt
málefni og m.a. þær áherslur sem félagsmenn vilja leggja varðandi
vetrarstarfið framundan. Á dagskrá er nýliðakennsla, öryggismál á
Hamranesi, skipulagsmál félgssvæðis, lækkun félagsgjalda, rafmagn í
flugstöð, breytingar varðandi Flugmálafélagið, dagskrá vetrarstarfsins og
önnur mál. Félagsmenn eru hvattir til að mæta og leggja grunn að öflugu
starfi félagsins í vetur.
Mikil aukning félagsmanna í flugmódelinu
Þyti 2001
Á fyrsta stjórnarfundi vetrarins var farið yfir lista félagsmanna í Þyti
og kom í ljós að nýir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald á þessu
ári eru 21 og eru þeir um 30% þeirra sem greitt hafa félagsgjald á árinu.
Hlutfall af heildartölu félagsmanna er um 21% þvi að 96 félagsmenn eru
skráðir þegar félagsmenn sem greiddu félagsgjald fyrrifram fyrir um 10
árum eru taldir með. Á myndinni hér að ofan má sjá tvo unga flugmenn,
Róbert og Martein sem lokið hafa flugþjálfun hjá Þyti og eru báðir
komnir með Piper Cup í loftið. Þessar vélar hafa þeir smíðað frá
grunni.Við óskum þessum ungu athafnamönnum til hamingju með þessar fallegu
vélar.
Eitt glæsilegasta Piper Cup mót frá
upphafi
Piper Cup mót II árið 2001 var haldið á Hamranesi sunnudaginn 2. september.
Mikill fjöldi Piper Cup véla var á staðnum og margir gestir mættu til að
njóta dagsins. Pétur Hjálmarsson hafði veg og vanda af þessu móti og
sýndi tilþrif í mótshaldinu eins og hans er von og vísa. Nokkuð var um að
vandamál væri með mótora, en allar vélarnar fóru í loftið og allar komu
heilar niður nema ein. Pétur mótsstjóri er alltaf með óvæntar uppákomur
þegar hann flýgur Piper Cup (hver man ekki krassið aftur á bak eða
sjálfvirka sleppibúnaðinn á hjólunum) og í þetta skiptið tók
flugmaðurinn í vélinni hans völdin og renndi sér og sínum Piper inn í
garðinn við flugstöðina. Eftir að hefðbundnu mótahaldi lauk kom Skjöldur
með Mustanginn sinn stóra og setti mótórinn í gang. Þetta er 3W 80 tveggja
strokka línumótor sem skilar hátt í átta hestöflum. Hljóðið í
mótornum var einstaklega ljúft og fallegt og Mustanginn tók sig vel út
þegar honum var taxerað á brautinni. Það verður gaman þegar við sjáum
þessa glæsilegu flugvél fljúga.
Piper Cup mót frestast til sunnudags 2.
september kl. 10:00
Vegna veðurs frestast Piper Cuup mót II um einn dag eða til sunnudagsins 2.
september kl. 10:00. Menn eru kvattir til að mæta með vélar eða til að
horfa á.
Fundað varðandi skipulagsmál á Hamranesi
Þriðjudaginn 28. ágúst fóru Guðmundur G. Kristinson, Böðvar Guðmundsson
og Ágúst Bjarnason á fund með skipulagsyfirvöldum í Hafnarfirði. Þar var
rætt um okkar stöðu með flugvöllinn á Hamranesi og hugsanlegar breytingar
á staðsetningu í framtíðinni. Verið er að vinna aðalskipulag fyrir
svæðið sem verður líklega tilbúið fyrir áramót. Við lýstum vilja til
að vera með okkar starfsemi á Hamranesi eins lengi og kostur væri og ef við
þyrftum að fara, að okkur yrði þá úthlutað nýtt svæði sem næst
Hamranesi (líklega aðeins sunnar í hrauninu). Einnig gerðum við
athugasemdir við hæðina vestan við svæðið okkar í dag sem verulega hefur
hækkað á undanförnum árum og "tippinn" fyrir hrossaskítinn
vestan við okkur. Við spurðumst fyrir um þann möguleika að fá rafmagn á
Hamranes og var okkur vísað á Orkuveutu Suðurnesja í þeim efnum. Við
treystum því að Hafnarfjarðarbær verði okkur innan handar með allar
breytingar varðandi svæðið okkar og að við verðum settir í forgang með
nýtt svæði á undan nýjum aðilum sem ekki hafa verið með aðstöðu í
hrauninu. Hafnarfjarðarbær hefur reynst okkur vel og gert mikið fyrir okkur
í gegnum árin.
Flugreglur á Hamranesi ekki virtar -
öryggismál þarf að bæta
Það hefur komið fyrir nokkrum sinnum í sumar að skapast hefur hættuástand
þegar verið er að fljúga á Hamranesi. Það er að mestu sömu aðilar sem
hafa flogið þar síðasta áratug og þeir skapað sér ákveðnar
umgengnisreglur sem allir voru sáttir við, en síðustu árin hefur fjölgað
verulega nýjum aðilum og þegar þetta er skrifað eru tíu manns að bíða
eftir flugkennslu og nokkrir að læra á eigin vegum. Stutt er síðan ein
kennsluvél félagsins brotlenti vegna þess að nýr aðili sem ekki hafði
greitt félagsgjald kveikti á sendi ofan í hennar tíðni á flugi. Flugmenn
hafa lent á móti vélum sem eru að taxera og öfugt, vélar hafa verið teknar inn til
lendingar meðan fólk er á brautinni, flugmenn standa ekki saman og eru
jafnvel á sitt hvorum vellinu. Mönnum hefur sinnast vegna þessarar umgengni
sem ekki væri ef allir færu eftir þeim reglum sem gilda og hanga upp á vegg
inn í flugstöðvarhúsinu. Við þurfum að finna aðra útfærslu á
tíðnitöflunni þar sem fram koma líka upplýsingar um hver sé að fljúga
(ekki bara að tíðni sé upptekin).
Piper Cup mót II verður laugardaginn 1.
september kl. 10:00
Formaður mótanefndar og mótsstjóri Piper Cup móta síðustu ára hefur
ákveðið að verða með Piper Cup mót II laugardaginn 1. september kl.
10:00. Þær fréttir hafa borist að margir Piperar séu við það að komast
í loftið og reiknað er með að 11 eða fleiri vélar muni verða á þessu
síðasta móti sumarsins. Allir sem eiga Piper Cup eru hvattir til að mæta og
fljúga á þessu móti.
Skemmtilegt listflugmót
Síðasta listflugskeppni sumarsins var haldin á Hamranesflugvelli
sunnudaginn 26. ágúst kl. 10:00. Mótið var vel sótt og keppendur voru fimm
talsins. Fjórir kepptu í byrjendaflokki, en aðeins einn keppandi
tilkynnti.þáttöku í Keppnisflokki I. Mótsstjórinn Birgir Sigurðsson sá
um að allt færi vel fram og samkvæmt reglum. Í byrjendaflokki varð Björn
Sigurðsson í 1. sæti, Guðjón Halldórsson í 2. sæti og Rafn Thorarensen í
3. sæti, en aðeins munaði tveimur stigum á honum og Guðmundi G.
Kristinssyni sem varð í fjórða sæti. Stefán Sæmundsson keppti einn í
Keppnisflokki I, en þetta er í fyrsta skipti sem þetta flugkerfi er flogið
í keppni hér á landi. Það hefur verið gaman að sjá hversu margir hafa
mætt til að fylgjast með listflugskeppnum sumarsins, en aftur sorglegt hversu
fáir hafa tekið þátt í þeim. Til að þessar keppnir verði að föstum
lið hjá okkur verða fleiri að taka þátt og menn að æfa sig betur undir
keppnirnar. Með því að æfa samkvæmt áætlum ákveðna hluti og bæta
síðan við jafnt og þétt erfiðari æfingum eru flugmenn að bæta sína
flugkunnáttu og þessar keppnir ættu síðan að sýna hvar hver og einn
stendur. Því miður virðist áhugi fyrir aukinni flugtækni félagsmanna vera
takmarkaður og kannski menn séu bara sáttir við að geta tekið upp, flogið
umferðarhrig og lent.
Síðasta listflugmót sumarsins verður á
Hamranesi sunnudaginn 26. ágúst kl. 10:00
Lokakeppni sumarsins í listflugi verður haldin á Hamranesflugvelli
sunnudaginn 26. ágúst kl. 10:00. Spáin er góð og ættu allir áhugasamir
að fara að taka fram vélina sína og æfa prógrammið á laugardeginum. Við
hvetjum félagsmenn til að taka þátt í þessari léttu og skemmtilegu keppni
sem allir með lágmarksfluggetu geta tekið þátt í. Eftir keppni verður
upplagt að halda áfram að fljúga því allt stefnir í frábært flugveður
á sunnudaginn.
Kirkjumálið upplýst
Eins og margir hafa séð, þá er komin þessi veglega kirkjubygging við hlið
norðvestur/suðausturbrautar á Hamranesi. Við hlið hennar er skilti með
áletrun um að hún sé til minningar um flugvélar og áhafnir sem farist hafa
á Hamranesflugvelli. Mikil umræða hefur verið í gangi um það hver
kirkjusmiðurinn sé, en á skiltinu var undirritunin "Yfirkennari".
Þetta mál hefur verið upplýst þar sem Bjössi "yfirkennari" hefur
viðurkennt að hafa sett upp kirkjuna, en hann smíðaðai hana á sínum
"yngri árum". Samþykkt hefur verið að þessi kirkja komi til með
að þjóna Hamranessókn og Pétur Hjálmarsson hefur verið settur í embætti
sem sóknarprestur. Þeir sem óska blessunar á nýjum vélum eða jarðarfarar
eftir flugslys er bennt á að hafa samband við hinn nýskipaða prest í síma
8971007.
Vel heppnað Piper Cup mót
Langt er síðan jafn margir hafa komið á Hamranes og var á Piper Cup móti
Péturs Hjálmarssonar. Pétur og Reynir flugu samflug, Erlendur dansaði vals
með sínum skemmtilega Piper, Jóhannes bræður mættu með nokkra Pipera sem
teknir voru af Internetinu og nýr Piper í herlitum frá Selfossi fór
jómfrúarflugið. Erlendur sá um að allir fengu kaffi og var glatt á hjalla
í flugstöðinni. Mótsstjórinn átti þó uppákomu kvöldsins þegar hann á
1/4 Piper Cup setti hjólin niður í veginn úti við hlið og missti þau
undan vélinni, en flaug síðan hjólalaus inn á flötina og magalenti þar
án skemmda. það er með ólíkindum hvað hann er lánssamur hann Pétur, en
allir muna líklega eftir þotulendingu hans í blindflugi fyrir nokkrum
árum.
Piper Cup mót þriðjudaginn 14. ágúst
kl. 19:00
Árlegt Piper Cup mót í umsjón Péturs Hjálmarssonar verður haldið með
pomp og pragt þriðjudaginn 14. ágúst kl. 19:00 Félagsmenn eru hvattir til
að mæta með allar gular vélar og skemmta sér og öðrum.
Frábær módelflugkoma
Flugmódelfélags Akureyrar
Árleg flugkoma FMFA helgina eftir Verslunarmannahelgi tóks frábærlega og var
vel sótt af módelmönnum og gestum. Talið er að yfir 60 módel hafi verið
á staðnum og um eða yfir 100 manns í kringum þau. Mörg hundruð manns komu
síðan til að fylgjast með og upplifa stemmninguna. Rigning setti strik í
reikninginn, en henni létti sem betur fer og var þá hægt að fljúga.
Félagar í FMFA eiga heiður skilið fyrir að standa árlega fyrir einni
stærstu hátíð flugmódelmanna á hverju ári. Grillmaturinn var ljúffengur
og menn tóku lagið fram eftir nóttu. Kærar þakkir til ykkar fyrir norðan.
Þú getur séð myndir frá helginni með því að smella hér.
Helgina 11. - 12. ágúst verður árleg módelflugkoma
Flugmódelfélags Akureyrar haldin á Melgerðismelum í Eyjafjarðarsveit.
Svæðið verður opnað fyrir umferð föstudaginn 10. og flug hefst síðan kl. 9:00 á laugardagsmorguninn.
Sendagæsla verður á svæðinu og hefur Skjöldur Sigurðsson frá Flugmódelfélaginu Þyt
góðfúslega tekið að sér tíðnistjórnun á vellinum ásamt félögum úr Flugmódelfélagi Akureyrar.
Umferð um veginn við flugbrautarendann verður stjórnað svo að ekki trufli flugtök eða
lendingar. Kl. 18:00 verður kveikt upp í grillinu og vel útilátnar grillmáltíðir
seldar á kr. 1000. Góð aðstaða er við Flugstöð Þórunnar Hyrnu fyrir tjöld og
tjaldvagna. Salernisaðstaða ásamt heitu og köldu vatni er í flugstöðinni. Undanfarin ár hafa margir gist á svæðinu
og góður andi svifið yfir vötnum. Allt áhugafólk um flugmódel er hvatt til að mæta á þennan viðburð,
kynnast öðru módelfólki og huga að því nýjasta sem er að gerast í sportinu.
Ef óskað er nánari upplýsinga er bent á eftirtalda: Árni Hrólfur Helgason símar 462 5962 - 867 3923,
Kjartan Guðmundsson símar 462 5220 - 460 7650 - 898 5235, Björn Sigmundsson símar 462 3243 - 895 0843
og Þorsteinn Eiríksson sími 463 1104
Með kveðju, Árni Hrólfur Helgason, formaður Flugmódelfélags Akureyrar
Úrslit í Listflugskeppni 24. júlí
Listflugskeppni II var haldin í miklum hliðarvindi þriðjudaginn 24. júní.
Birgir Sigurðsson mótsstjóri stjórnaði keppninni með myndarbrag og hafði
þrjá dómara (Jón V. Pétursson, Stefán Sæmundsson og Skjöld Sigurðsson)
ásamt aðstoðarmanni sér til halds og trausts (Kristján Antonsson). Aðeins
þrír keppendur tóku þátt (Steven, Reynir og Guðmundur G. Kr.), en mikill
fjöldi manns fylgdist með keppninni. Farnar voru þrjár umferðir og
kláruðu Steven og Reynir þær allar, en Guðmundur braut skrúfu í lendingu
eftir fyrstu umferð. Mjög mjótt var á milli Steven og Reynis í stigum, en
Steven hafnaði í fyrsta sæti, Reynir í öðru sæti og Guðmundur rak
lestina með þriðja sætið. Mótsstjóri lagði eftir keppnina áherslu á
að menn æfðu sig fyrir þriðja og síðasta mótið í sumar og fjölmenntu
til þátttöku.
Listflugskeppni frestað til þriðjudagsins
24.
júlí kl. 19:00
Vegna veðurs og veðurspár fyrir vikuna 16-23 júlí er listflugskeppni sem
átti að vera miðvikudag 18. júlí frestað til þriðjudagsins 24. júlí
kl. 19:00. Nánari upplýsingar í næstu viku verða á símsvara félagsins
562 2910.
Eitt símtal og ótrúlegt
upplýsingaflæði fór af stað
Undirritaður Guðmundur G. Kristinsson átti fróðlegt símtal við Ágúst
Bjarnason um hrekki í Kyosho Cap 232 og fékk hjá honum upplýsingar um
stillingar á hallastýrum til að losna við hrekki í vélinni. Bjössi er
með eins vél og er þegar búinn að prófa þetta og virkaði það vel.
Undirritaður á eftir að prófa sinn Cap eftir breytingar á stillingum, en
fimmtudaginn 19. júlí setti Ágúst þetta málefni á póstlistann og
viðbrögðin voru ótrúleg. Það komu fram upplýsingar frá fjölda aðila
um þetta málefni og eiga þær eftir að hjálpa mörgum til að komast hjá
erfiðleikum með nýjar vélar í framtíðinni. Þetta er eitt besta dæmið
sem ég hef séð um þann gríðarlega fróðleik sem býr hjá okkar
félagsmönnum. Hafið bestu þakkir og haldið áfram að koma slíkum
upplýsingum á framfæri. Hér að neðan má sjá allar þessar upplýsingar
teknar saman.
______________________________________________
"Meira upp en niður"
Frá NASA
Sumarkveðja
1). Velja góðann dag (helst logn)
Með von um farsælar lendingar.
Listflugskeppni verður miðvikudaginn 18.
júlí kl. 19:00
Á mótaskrá félagsins er listflugskeppni miðvikudaginn 18. júlí kl. 19:00.
Keppt verður í flokki byrjenda og flokki I ef að fjöldi þátttakenda
verður nægur. Listflugsprógrömmin sem verða flogin er hægt að nálgast á
heimasíðu félagsins http://www.thytur.is/listflug.pdf
og upplýsingar um einkunnargjöf og dómgæslu er hægt að nálgast undir http://www.thytur.is/LISTFLU2.pdf
Ef að veðrið verður ekki í lagi þá verður keppni frestað fram á
fimmtudag 19. júlí kl. 19:00. Hægt verður að fylgjast með nánari
upplýsingum á símsvara félagsins 562 2910.
Þyrlur, rafmagnsvélar og flugkennsla
Það var gaman að sjá fjölbreytnina í fluginu einn daginn á Hamranesi.
Sigurður var að fljúga þyrlunni, Ágúst með rafmagnssvifflugu,
Bjössi var
að kenna módelflug og nokkrir aðrir að fljúga hefðbundnum módelum.
Myndirnar sem fylgja hér með segja meira en nokkur orð.
Íslandsmeistaramótið í F3F og F3B verður helgina
30/ 6 - 1/7
Íslandsmeistaramót í F3F og F3B verður haldið helgina 30/6 - 1/7. Þá er komið að því um næstu helgi. Líklegasti mótsstaðurinn er
Gunnarsholt. Sami staður og á síðasta ári. Stefnt er að því að mótið hefjist kl 10:00 á laugardags morgni. Búast má
við að einhverjir fari austur á föstudags kvöldi og gisti í tjaldi. Það var ágætis stemming á
tjaldstæðinu í fyrra. Nú er það svo að mót sem þetta er samsett af þremur mismunandi hópum,
starfsmönnum, keppendum og áhorfendum. Stundum hefur reynst erfitt að fá nægilega marga
starfsmenn og því er lýst eftir þeim. Þeir sem hafa áhuga á mótinu og vilja taka þátt, sem keppendur, starfsmenn
eða áhorfendur geta verið í sambandi við Frímann í síma 899 5052 eða Guðjón
8964816. Mót sem þetta er að sjálsögðu háð veðri og gæti staðsettning og tími
breytst og er þá gott að hafa hugmynd um hverjir hafi hugsað sér þáttöku.
Jónsmessumótið verður helgina 22.-24.
júní
Flugmódelfélag Akureyrar hefur haldið flughelgi í ágúst árum saman þar
sem fjölskyldur módelmanna koma saman og gera sér glaðan dag. Nú ætlum
við hjá Þyti að gera Jónsmessuna að árlegri flugkomu í svipuðum stíl
og fyrsta flugkoman verður helgina 22.-24. júní að Klaustri á Suðurlandi.
Þar geta menn mætt með sínar flugvélar, fjölskyldu, tjaldið og góða
skapið strax á föstudegi ef menn vilja. Ekki er fyrirhugað að hafa fasta
dagskrá, en hugsanlega að grilla saman í hlöðunni. Ef ykkur vantar pláss
í gistingu þarf að hafa samband við Björgúlf í síma 899 5792.
Lendingarkeppnin tókst vel
Árleg lendingarkeppni í umsjón Björns var haldin fimmtudagskvöldið 14.
júní. Þátttaka var góð og keppendur á öllum aldri. Dómarar voru
Steinþór, Ágúst og Björn og héldu þeir til á stólum við brautarendann
í næstum tvo klukkutíma. Guðjón varð í fysta sæti með vægast sagt
óvenjulega flugvél með sprungið afturdekk. Í öðru sæti varð Arnar og
Pétur Hjálmarsson náði í þriðja sætið. Margir komu til að fylgjast með
keppninni og haldið var áfram að fljúga eftir að keppni var lokið.
Völlurinn á Hamranesi tekinn í gegn
Margir mættu á miðvikudaginn 13. júní eftir hvatningu vallarmanna um að taka til hendinni við
flugvöllinn okkar á Hamranesi. Allir graskantar voru snyrtir og síðan
þjappaðir niður með bílum og dráttarvélinni okkar góðu. Einnig náðist
að slétta vel völlinn og ná niður nokkrum hólum sem voru þar komnir.
Það var góð stemmning í hópnum og gaman að sjá hversu menn eru tilbúnir
að vinna vel saman að því að bæta okkar aðstöðu á Hamranesi.
Frábært mánudagskvöld á Hamranesi
Mikill fjöldi véla var í loftinu á mánudagskvöldinu 11. júní. Sigugeir
með Þyrluna, Karl Hamilton með Giles, Guðmundur formaður með Magnum,
Ágúst með Capinn, Júlíus með Super Star, Steven með Ultra Sport og Limpo
daneser, Björn með Sukoi og margir fleiri. Veðrið lék við flugmenn og
áhugasama áhorfendur sem voru margir.
Afmælismót Þyts heppnaðist vel
Pétur Hjálmarsson hafði umsjón með afmælismóti Þyts 2001 og var vel
mætt á staðinn og menn gerðu sér skemmtilegan dag. Listflugið var í
hávegum haft og sást til margra sem voru greinilega að æfa sig samkvæmt
nýju listflugferlunum. Jón V. Pétursson setti nýjan Ultimate í loftið.
Steven sem er höfundur listflugferla Þyts (byrjendur og keppnisflokkur I)
flaug skemmtilegt listflug og var greinilega með þetta allt á hreinu. Pétur
Hjálmarsson sást sveifla vídeóvélinni af miklum móð þegar Steven var að
fljúga.
Mótsstjórn ákveður breytingar á
listflugsdagskrá sumarsins
Greinilegt er að áhugi á listflugi er mikill, en margir flugmenn sem virðast
telja sig enn
ekki hafa þá kunnáttu sem þarf til að taka þátt í móti. Þessi fyrsta
uppákoma í listflugi sem var fimmtudaginn 7. júní sýndi þetta með góðri
mætingu, en fáum aðilum til að taka þátt í mótinu sjálfu. Samkvæmt
tillögu Birgis mótsstjóra hefur mótsstjórn tekið ákvörðun um að halda ekki
fyrsta mótið aftur (sem frestað var til fimmtudags 7. júní og breytt í
listflugkennslu) bjóða fram aðstoð og kennslu til þeirra sem þess óska og
þurfa aðilar bara að hafa samband við einhvern í mótsstjórn (Birgir Sigurðsson, sími 5532752,
Jón V. Pétursson, sími 8957380 og Guðmundur G. Kristinsson, sími 8931701).
Næsta listflugmót verður síðan haldið 18. júlí. Við hvetjum áhugasaman
aðila til að hafa samband við mótsstjórn ef aðstoðar er þörf og
flugferlana er hægt að nálgast á heimasíðu Þyts http://www.thytur.is
undir fróðleikur.
Fyrsta listflugmótinu fimmtudaginn 7.
júní var breytt í listflugskennslu
Mikil mæting var á fyrsta listflugsmót sumarsins eða 25-30 manns. Ekki voru
allir með flugvélar og menn líklega ragir við að mæta beint í
listflugsmót þar sem lítið hefur verið hægt að fljúga. Einnig var nokkur
vindur og skítakuldi. Samkvæmt tillögu frá Birgi mótsstjóra var ákveðið
að fara yfir báða listflugsferlana inn í húsi og fá síðan Jón V.
Pétursson til að fljúga þann fyrri og Böðvar Guðmundsson þann seinni.
Eftir góða yfirferð á ferlunum var ákveðið að breyta einum þætti í
byrjendaflokki sem var Humpti bump í 1/2 kúbanska áttu (fljúga 45° upp,
velta 180° og taka vélina síðan á hvolfi í mjúkan hring niður á neðri
flughæð). Þegar skoðun á flugferlum var lokið var grillið hitað og
boðið upp á grillaðara pylsur og kartöflusalat á meðan Jón og Böðvar
gerðu flugklárt. Þeir flugu síðan báða ferlana og Björgúlfur lýsti
fyrir hópnum hvað væri í gangi í loftinu. Eftir þetta tóku aðrir upp
sínar vélar og eins og sést á myndunum með þessari grein var nokkuð af
vélum á staðnum þrátt fyrir kulda og vind.
Listflugmóti frestað til morguns,
fimmtudagsins 7. júní kl. 19:00
Þar sem vetrarveðrið er enn að hrella okkur með vindi og kulda, verður að
fresta fyrirhuguðu listflugsmóti um einn dag. Spáin fyrir fimmtudag er góð
og margir hafa nú þegar skráð sig til þátttöku. Munið eftir
grillveislunni og gestunum.
Listflugmót og grillveisla miðvikudaginn 6.
júní kl. 19:00
Miðvikudaginn 6. júní kl. 19:00 verður listflugkoma þar sem fer fram
listflugkennsla,. listflugmót og grillveisla. Mótsstjóri er Birgir
Sigurðsson og með honum í mótsstjórn eru Jón V. Pétursson og Guðmundur
G. Kristinsson. Dagskráin er þannig að fyrst flýgur reyndur listflugmaður
nýtt byrjendaprógramm sem Steven Altherton hefur hannað, eftir það fljúga
þátttakendur prógrammið með reyndum aðstoðarmanni sem talar viðkomandi
í gegnum prógrammið á hans eigin vél. Eftir þetta fljúga þátttakendur
sjálfir prógrammið og dómnefnd gefur stig fyrir flugið. Að þessu loknu
verður keppt í keppnisflokki I fyrir reyndari flugmenn og þátttakendur í
byrjendaflokki dæma þeirra flug. Samhliða þessu geta keppnisaðilar og
gestir fengið sér pylsur af grillinu og kartöflusalat ásamt drykkjarföngum
gegn vægu gjaldi. Við hvetjum félagsmenn til að taka þátt í flugkomunni
og taka með sér fjölskylduna og gesti. Varadagur vegna veðurs er fimmtudagur
og síðan eftir það þriðjudagur, miðvikudagur og fimmtudagur í næstu
viku ef þarf. Upplýsingar um þetta verða á símsvara félagsins 5622910.
Hægt er að skoða flugferla og fá nánari upplýsingar á
http://www.thytur.is/listflug.pdf eða smella hér.
Úrslitin í Kríumótinu
1. sæti Böðvar Guðmundsson 5965 stig, 2. sæti Frímann Frímannsson 4908 stig,
3. sæti Guðjón Halldórsson 4073 stig, 4. sæti Steinþór Agnarsson 3621 stig,
5. sæti Guðni V. Sveinsson 3452 stig og 6. sæti Sverrir Gunnlaugsson 1359 stig.
Mikið flogið laugardaginn 19. maí -
nýjar vélar í loftið daglega
Laugardaginn 19. maí kom loksins þokkalegt flugveður og líf og
fjör færðist yfir Hamranesið. Steinþór og nýji Capinn er orðinn fastur
liður á Hamranesi þegar viðrar til flugs. Kristján Antons mætti með
Extruna, Friðrik með eina af sínum fjölmörgum nýju vélum, Böðvar með
Big Lift, Guðmundur Kristinsson með Super Sportser 90 og fleiri. Einnig var
önnur ef kennsluvélum Þyts gerð klár fyrir sumarið. Böðvar flaug Big
Liftinum fallega í sínu fyrsta flugi, en því miður missti hann vélin eftir
að festing fyrir vængstífu brotnaði og er þetta í annað sinn sem svona
vél fer vegna galla í vængfestingu. Karl Hamilton kom með nýja Giles vél
frá Flear og eftir smálagfæringar á verkstæðinu í Hafnarfirði fór hún
í loftið seinnipartinn um daginn. Annað eins flugtak hefur ekki lengi sést,
en hún tók 45% dýfu, síðan beint upp og eftir það nánast lárétt út á
hlið. Karli tókst að ná henni í stóran sveig í átt að Keflavík og
síðan í austur inn dalinn. Þá tók hún upp á því að rolla stjórnlaust
á mikilfenglegan hátt. Steve reyndi að trimma vélina af fyrir hann, en
uppgötvaði þá að hann flýgur eftir annari aðferð en Karl og þá tók
Guðmundur formaður við og reyndi að trimma vélina. Þetta var eins og
fylgjast með kvikmynd á hægum hraða og hvert andartak sem heil mínúta.
Karl sló síðan af mótornum og náði þá tökum á vélinni, en litlu
síðar drapst á mótornum. Hann flaug þá með fallegum tilþrifum hring í
kringum svæðið og setti vélina í aðflug úr austri. Aðflugið var ekki
með minni tilþrifum en þegar tekið var í loftið. Engu líkara var en
vélin væri með hiksta því hún kom inn eftir fluglínu sem má einna helst
líkja við öldugang. Þegar vélin var komin niður eftir þetta
tilþrifamikla fyrsta flug í heilu lagi kom löng þögn hjá öllum
viðstöddum. Ef að Karl hefði farið í læknisskoðun á þessari stundu
hefði hann líklega verið greindur með parkingson veiki á háu stigi. Það
verður að segjast eins og er að viðstaddir hafa líklega aldrei aukið
adrenalínflæði sitt jafn mikið og þessi örfáu andartök sem voru eftirá
eins og margir klukkutímar.
Kríumótið - hittast kl. 10:00 á
laugardag við Álverið
Mæting á Kríumótið á laugardag 12. maí er á bílastæðinu við Álverið í Straumsvík kl 10:00.Veðurspá er nokkuð góð. Sunnudagurinn er þó hugsaður sem varadagur.
Reiknað er með að mótið verði haldið á Höskuldarvöllum að venju. Farin var könnunarferð á Höskuldarvelli í gærkvöldi. Grasið er orðið
sæmilega þurrt. Þarna eru í gangi einhverjar orkuframkvæmdir og liggur töluvert af rörum meðfram hlíðinni. Vegurinn er mjög góður.
Muna þarf eftir kaffinu og því sem með því þarf.
Þrír stoltir með nýju vélina sína!
Vel heppnað vöfflumót, vinnudagur og
"rólegur" fundur
Fjöldi aðila mætti á laugardagsmorgninum 5. maí á Hamranes og
tók þátt í að skúra út flugstöðina. Pallurinn var háþrýstiþveginn,
jafnað var úr hryggnum á veginum og sett upp bönd fyrir ofan bita á verönd
flustöðvarinnar til að bægja frá fuglum. Sótt var vatn á vatnskútinn og
settur nýr rafgeymir (sem Steinþór gaf) við ljósavélina. Pétur og
Jóhannesbræður stóðu sig vel í vöfflubakstrinum og komu einnig með
forláta kökur sem skreyttar voru með súkkulaðiflugvöllum. Fundurinn
sem átti að vera kl. 14:00 breyttist í létt spjall um daglega hluti, því
margir voru farnir fyrir þann fundartíma. Guðjón flaug svifflugu í
hlíðinni norðan við flugstöðina og skemmtilegt að sjá hvað hann gerði
þetta vel, því vindur var mikill.
Fimmtudagsfundur færist fram á
laugardaginn 5. maí kl. 14:00 á Hamranesi og þennan sama dag verður
Vöfflumótið og vinnudagur
Fimmtudagsfundur sem átti að vera 3. maí færist yfir á
laugardaginn 5. maí kl. 14:00. Þennan sama dag er skráð árlegt Vöfflumót
og einnig verður vinnudagur undir umsjón Erlendar þennan sama laugardag. Á
fundinum verður farið yfir stöðu mála varðandi viðhald á flugstöð og
flugvelli á Hamranesi, kynnt verður framkvæmd á lisflugmótum sumarsins,
Arnar og Steve sýna hugsanlega brot af nýju myndbandi frá 30 ára
afmælisflughátíðinni á síðasta ári, farið verður yfir öryggismál á
flugvelli og að lokum liðurinn önnur mál. Við hvetjum menn til að mæta
snemma á laugardagsmorgninum og taka til hendinni í hreinsun, þrifum og að
koma okkar glæsilegu aðstöðu á Hamranesi í gott stand fyrir sumarið.
Líf og fjör á Hamranesi - Vinnudagur
laugardaginn 5. maí
Mikið var um að vera á Hamranesi miðvikudaginn 25. apríl.
Nokkrir byrjuðu að fljúga strax eftir hádegi og síðan fjölgaði mikið
seinnipartinn. Menn sáust nota nýstárlegar aðferðir við að draga
svifflugu í loftið, en sett var band í hundinn hans Þrastar og hann látinn
hlaupa með sviffluguna í loftið. Margar nýjar vélar eru að koma fram eftir
veturinn og enn fleiri væntanlegar. Það stefnir í fjörugt sumar í
módelflugi og veðrið verður vonandi ekki til þess að spilla fyrir. Jón Erlendsson flugvallarstjóri ætlar að reyna að fá hóp manna til að hjálpast að við að gera
svæðið og húsið klárt fyrir sumarið og hefur þar nefnt laugardaginn 5.
maí þegar vöfflumótið verður. Það verða allar græjur á staðnum til að þrífa húsið og einnig ætla
Jón að fá lánaða háþrýstigræju (Sigurgeir ætlar að koma með sína) til að smúla pallinn.
Best væri ef hægt væri að mæta snemma og ef góður hópur mætir þá tekur þetta
ekki langan tíma. Hliðið ætlar Jón að reyna að gera við næstu daga og ef veður og græjur
leyfa þá væri kannski hægt fríkka upp á það þennan laugardag sem þrifinn
verða. Svo virðist sem staurinn með lásnum hafi gengið aðeins til og skekkst
aðeins útá við og þar af leiðandi leggst aðalrörið á kassann og nær ekki í
lásinn, einnig hefur svo brotnað einn flatjárnsbútur þannig að lásinn getur
ekki opnað ef það læsist. Einnig verður kíkt á flugbrautina bráðum til að sjá hvaða möguleikar eru í
boði og Jón hefur verið að afla mér upplýsinga um þau mál og tala við "sérfræðinga" á því sviði.
Ef einhverjir vita um eitthvað sérstakt sem þarf að gera þá endilega látið
Jón vita og mætið og hjálpið til. Vatnsmálin eru í góðum höndum hjá Eggerti og mun hann sjá um það á næstunni
að vatn verði á húsinu. Ef menn verða varir við eitthver vandamálc varðandi
vatnið í sumar eru þeir vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Jón eða
Eggert beint.
Skemmtun, fræðsla, innkaup og fleira á
tenglasíðu Þyts
Búið er að taka tenglasíðu Þyts í gegn og þar er að finna
margar áhugaverðar heimsíður s.s. RC Exchange þar sem hægt er kaupa 37%
Extru af Bob Godfrey og 1/2 skala Piper Cup á kr. 600.000.
Einnig er þarna að finna marga aðila með "giant" flugmódel á
góðu verði s.s. 2-2.5 metra vænghaf Extru, Sukoi eða Giles á kr. 40-60.000
tilbúnar og klæddar.
Bob Godfrey með Extruna
1/2 skala Piper Cup
Skemmtilegur og fræðandi félagsfundur
Þytur var með félagsfund í Garðaskóla 5. apríl s.l. og var
hann vel sóttur. Björgúlfur Þorsteinsson fór yfir gerðir og útfærslur á
flugvélum til að nota í listflugi. Einnig lýsti hann byrjunaræfingum og
rammanum sem þarf að venja sig við að fljúga innan þegar verið er að
fljúga listflug. Eftir fróðlega hluti frá Björgúlfi var sýnt myndvand
með Quique Somenzini en hann er frá Argentínu og er
meistari í TOC (Tournament of Champion) í Bandaríkjunun. Margir sem voru á
fundinum höfðu á orði að þetta væri "feikað" myndband, en svo
er ekki. Hann flýgur Laser vél sem hann og faðir hans hafa gert á nokkrar
breytingar til að auka stöðugleika, en stöðugleiki vélarinnar og hæfni
flugmannsins er ótrúleg. Hann nánast lendir vélinn lóðrétt og snertir
völlinn með stélhjólinu. Hann hengir vélina á mótórinn og nánast færir
yfir flugvöllinn sentimetra í einu og við brautarendann hengir hann vélina
alveg á mótórinn og bakkar aftur eftir flugvellinum og snýr um leið vélinn
rólegt "tork" roll. Hann veltir síðan vélinn hæga veltu á litlum
hraða í um tveggja metra hæð eftir vellinum. Eftir myndbandið fór
Guðmundur G. Kristinsson yfir listflugmótin sem verða í sumar, en þetta eru
í raun ekki mót heldur verkleg kennsla í listflugi. Gert er ráð fyrir að
reyndur listflugmaður taki í upphafi hvers móts nokkra æfingar og að því
loknum muni þrír til fjórir reyndir listflugmenn verða flugmönnum til
aðstoðar við að fara í gegnum sama prógram með eigin vélar. Í lok
kennslunnar fara síðan þátttakendur í gegnum þetta prógram á eigin
spýtur og dómnefnd dæmir æfingarnar. Fyrstu þrjú sætin gefa stig og á
síðasta mótinu kemur í ljós hverjir verða bestu listflugmenn Þyts á
árinu 2001. Farið var yfir mótaskrá sumarins og hún samþykkt. Á fundinn
mættu fimm módelflugmenn frá Selfossi og samþykkti fundurinn að þeir kæmu
sem félagar í Þyt, en mynduðu sérstaka Selfossdeild. Þeir sem ekki hafa
flogið í þessum hópi verða teknir saman í sumar og fá kennslu í
módelflugi. Félagsmenn voru hvattir til að aðstoða þessa áhugasömu ungum
menn eins og kostur væri og þeir boðnir velkomnir í félagið. Nokkuð var
rætt um ástandið á flugvelli félagsins og talið að gera þurfi
lagfæringar á honum. Verið er að skoða möguleika á að fara með stórum
titringsvaltara yfir brautirnar og einnig gæti þurft að berja niður nibbur
á malbikinu. Jón Erlendsson er að skoða þessi mál með nefndarmönnum í
flugvallarnefnd.
Félagsfundur verður fimmtudaginn 5. apríl
í Garðaskóla.
Þytur verður með félagsfund í Garðaskóla Garðabæ
fimmtudaginn 5. apríl kl. 20:00. Á dagskrá verður kennsla fyrir
módelflugmenn sem vilja taka fyrstu skrefin í undirbúningi fyrir listflug.
Þar má t.d. nefna æfingaáætlun, markmiðasetningu, byrjunaræfingar og
fleira. Okkar ágæti listflugmaður Björgúlfur Þorsteinsson mun sjá um
kennsluna. Eftir þessa kennslustund í listflugi verður sýnt myndband frá
stórkostlegu módelflugi Quique Somenzini en hann er frá Argentínu og er
meistari í TOC (Tournament of Champion) í Bandaríkjunun. Hver mundi trúa
því að hægt væri að lenda flugmódeli lárétt!!! Látið þetta
stórkostlega myndband ekki fram hjá ykkur fara. Mótaskráin verður tekin
fyrir í síðasta sinn og endanlega gengið frá henni fyrir sumarið. Að
lokum verður fjallað um inngöngu nokkurra góðra félaga frá Selfossi, en
stefnt er að því að þeir komi inn sem hefðbundnir félagar með öll
réttindi, en sem sér deild. Við hvetjum alla okkar félaga til að mæta og
taka þátt í skemmtilegum og spennandi fundi.
Þytsfagnaðurinn var ein besta skemmtunin um
áraraðir og Balsabandið sló í gegn sem ein besta danshljómsveit landsins.
Vel var mætt eða um 50 manns á fagnað Flugmódelfélagsins Þyts sem haldinn var
í fallegum og hlýlegum sal á annarri hæð í verslunarmiðstöðinni á
Seltjarnarnesi. Fólk fékk fordrykk við komu á staðinn og að því loknu
var fram borið glæilegt hlaðborð með dýrindis réttum. Allir fengi síðan
kaffi og sumir fengu sér koníak með því. Eftir borðahaldið var dregið í
happdrætti þar sem Húsasmiðjan, Þröstur Gylfason og Pétur Hjálmarsson
höfðu gefið glæsilega vinninga s.s. brauðrist, töfrasprota (fyrir
karlmenn), módelljós, tösku undir fjarstýringu og módelhnífa. Eftir
happdrættið tók Steinþór lagið Skýið (lag sem Björgvin Halldórsson
gerði frægt) með hluta af Balsabandinu og var þetta glæsileg byrjun á
frábæru kvöldi með Balsabandinu. Eftir sönginn mætti á staðinn eftir
nokkra leit heimsfrægur gestasöngvari.sem var vægast sagt ekki með mjög aðlaðandi útlit. Hann söng lagið Spáðu í mig (lag sem Megas gerði
frægt) með miklum tilþrifum og bar um leið nánast upp bónorð við nokkra
aðila í salnum. Eftir þetta kynnti Guðmundur G. Kristinsson formaður nýjar
reglur í lögum félagsins þar sem sett hefur verið á flug- og smíðaskylda
á félagsmenn. Einnig að 10% tekna félagsmanna ættu í framtíðinni að
renna til félagsins. Skipaður hefur verið læknir félagsins og kynnti
Guðmundur nokkrar sjúkdómslýsingar á krónískum sjúkdómum
flugmódelmanna.Gert var gaman að þessum nýju tímum sem framundan væru hjá
félaginu. Átta flugmódelmenn settu saman módel á staðnum og kepptu síðan
með þeim í "Pilon race" Vinningshafinn sem reyndist vera Þröstur
Gylfason var sæmdur kapteinsnafnbót og krýndur orðu rússnesku
flugmódelakademíunnar. Eftir þessar skemmtilegu uppákomur tók Balsabandi
við kvöldinu, en í hljómsveitinni eru sjö meðlimir og af þeim hópi eru
fjórir í stjórn félagsins. Veislugestir höfðu líklega ekki uppi miklar
væntingar um þessa hljómsveit (hún kunni fjögur lög á árshátíðinni í
fyrra), en það kom í ljós að að þetta er einhver mesta stuðhljómsveit
samtímans. Þeir tóku rjómann af öllum bestu íslensku og erlendu lögum
áranna 1960 til 1990 ásamt nokkrum yngri lögum. Dansgólfið var troðið
allt kvöldið (það var tómt í pásunni) og fjölbreytnin í söngnum var
mikil því söngvarar í hljómsveitinni voru fjórir alls. Þegar leið á
kvöldið fór að koma vinir og kunningjar félagsmanna og skapaði það
góða stemmningu. Hljómsveitin spilaði svo þétt að kvartað var frá
íbúðum sem eru fyrir ofan salinn. Dansinn dunaði til klukkan fjögur og
hefði líklega gert lengur ef hægt hefði verið. Við færum þessum
frábæru tónlistarmönnum bestu þakkir fyrir eitt skemmtilegasta kvöld sem
margir höfðu upplifað. Við sem fengum að njóta þessa frábæru
kvöldstundar vorkennum þeim félagsmönnum sem sáu sér ekki fær að koma,
en vonum að þeim gefist tækifæri til þess að ári liðnu.
Árshátíðin okkar verður á
laugardaginn - Félagar eru hvattir til að mæta
og taka með sér maka og gesti.
Árshátíð flugmódelfélagsins Þyts verður laugardaginn 17. mars
n.k. á Sex Baujunni sem er veitingastaður við hliðina á Rauða ljóninu á
Eiðistorgi, Seltjarnarnesi. Koniac stofan opnar kl. 18:00, en hún er á neðri
hæðinni. Kl. 19:00 hefst borðhald og boðið verður upp á súpu og
hlaðborð með heitum og köldum réttum. Eftir matinn verða uppákomur og
dansinn stiginn með hinu heimsfræga Balsabandi. Margir hafa þegar skráð
sig, en verðið er kr. 2750 fyrir manninn. Félagsmenn eru hvattir til að taka
með sér maka og gesti.
Stórskemmtilegur og fræðandi félagsfundur
Þriðji félagsfundur Þyts á árinu var haldinn í Garðaskóla
fimmtudaginn 8. mars. Frekar döpur mæting var á fundinn fyrsta klukkutímann,
en hópurinn var orðinn nokkuð stór þegar aðalefni kvöldsins,
Norðurlandamótið í svifflugi var á dagskrá. Fyrst var kynnt árshátíð
félagsins og flestir fundarmenn skráðu sig og gesti til þátttöku. Stefnir
í að aðsókn verði góð og Balsabandið tryggir að þetta kvöld verður
ógleymanlegt. Næst tók til máls Böðvar Guðmundsson með kynningu á
norðurlandamóti í hangflugi á svifflugum. Þessi kynning tóks frábærlega
og margir fundarmenn hafa í dag miklu betri sýn á það hversu skemmtilegt og
gefandi svifflug getur verið. Sýndar voru vídespólur úr starfi Þyts, frá
erlendum stórmótum í hangflugi og þar mátti m.a. sjá íslenska keppendur
sem tóku þátt. Einnig var sýnt hvernig stýringar Tragi keppnissvifflugu
virka og kom mörgum á óvart hversu fjölbreytta stjórnun er hægt að hafa
á svifflugu. Böðvar sýndi hvernig hægt var að hafa hallastýri eftir
öllum vængnum, flapsa eftir öllum vængnum eða vera með
"butterfly" og snarstöðva svifflugu sem er á fullri ferð. Þessi
kynning var einnig full af góðum húmor, skemmtilegum myndum frá vélflugi og
fleiru. Jón Erlendsson kynnti breytingar á reglum um félagsgjöld og Pétur
Hjálmarsson fór yfir mótaskrá sumarsins, sem er full af fjölbreyttum
uppákomum. Mótaskráin er komin í hendur Arnars og mun hann setja hana inn á
heimasíði félagsins á næstunni. Samþykkt var að vísa uppsetningu
öryggisgrindar við flugvallarborð til stjórnar og þar verði tekin
ákvörðun um mögulegt frármagn til framkvæmda.
Næsti félagsfundur Flugmódelfélagsins
Þyts verður í Garðaskóla fimmtudaginn 8.
mars kl. 20:00.
Næsti félagsfundur flugmódelfélagsins Þyts verður í
Garðaskóla Garðabæ fimmtudaginn 8. mars kl. 20:00. Á dagskrá er kynning á
árshátíð Þyts og Balsabandsins þann 14. mars n.k., mótaskrá sumarsins, kynning á
norðurlandamóti í svifflugi, kynning á félagsgjöldum samkvæmt
lagabreytingum á síðasta ári, öryggisgrind og fleira. Félagsmenn eru
hvattir til að fjölmenna.
Skemmtileg heimsókn í R/C World í Orlando
og á stríðsflugvélasafn í Kissimee á Florida.
Formaður flugmódelfélagsins Þyts dvaldi í Orlanda Florida í
tvær vikur og heimsótti að sjálfsögðu menn í nærliggjandi módelklúbbi
í þessu mekka módelmanna sem er á Flórída. Á svæðinu voru margar
verslanir og fjöldi módelklúbba, en verðlag á módelvörum var svipað og
hjá Þresti (miklu betra að kaupa heima). Einn af þessum klúbbum sem var
heimsóttur var R/C World, en hann er rétt norðan við Orlando flugvöllinn.
Þar er gott flugsvæði með malbikuðum brautum, góðu klúbbhúsi og vatni
fyrir vatnaflug. Fjöldi félagsmanna er um 100 og meðalaldur þeirra er 71
ár. Klúbburinn hefur þá sérstöðu að eiga mikið landsvæði (130 ekrur)
og hefur meðal annars selt hluta af sínu svæði undir íbúabyggð og
aðalgatan í því hverfi heitir R/C World gata. Flestir félagsmenn eru
hlutahafar og kostar það um kr. 200.000 að gerast hluthafi. Hægt er að fá
heimild til flugs sem aukafélagi fyrir um kr. 26.000 á ári. Þessi völlur er
mikið notaður til æfingaflugs hjá þátttakendum í TOC keppninni
(Tournament of Champion). Eftir að hafa heimsótt þennan klúbb fer maður
ósjálfrátt að bera saman aðstöðu þar og hjá okkur heima. Við erum með
aðstöðu sem er með því besta sem til er og það kostar yfirleitt miklu
minna fyrir okkur að njóta hennar en víðast annarsstaðar. Einnig var heimsótt strísflugvélasafn í
Kissimee sem er rétt sunnan við Orlando flugvöll og skemmtilegt að sjá þar
margar góðar vélar úr seinni heimstyrjöldinni. Þar er einnig hægt að
fljúga (alvöru, sjá mynd) tveggja manna vél úr seinni heimstyrjöldinn
(með aðstoðarflugmanni fyrir aftan) og ekki talin þörf á reynslu úr flugi
til að gera skemmtilegar listflugsæfingar eða fara í flugslag
(combat).
Félagsmenn varkárir varðandi kaup á
húsnæði og árshátíðin með Balsabandinu verður 10. eða 17. mars n.k.
Á félagsfundi 1. febrúar voru kynntar hugmyndir um kaup á
húsnæði í Hafnarfirði undir smíðaaðstöðu, fundastarf og
námskeiðahald. Viðbrögð fundarmanna voru þau að flestir eru varkárir og
vilja fá nákvæmar tölur um kostnað og skuldbindingar til að geta myndað
sér skoðun á málinu. Þetta er mjög gott vegna þess að ekki má flana að
neinu sem gæti síðan verið erfitt að losna frá. Verið er að skoða
nákvæmar tölur yfir verð með millilofti, stiga og milliveggjum ásamt
kostnaði við raf- og pípulagnaefni, borð, innréttingar á kaffistofu,
gólfefni og fleira. Þetta verður tekið fyrir aftur á næsta fundi og þá
tekin ákvörðun um hvort skipa eigi í nefnd eða leggja þetta alveg til
hliðar. Rætt var um öryggisgrind við smíðaborð á flugvelli og fannst
mönnum að taka þyrfti upp aftur tillögur að öryggisreglum fyrir völlin og
samþykkja þær á félagsfundi. Ákveðið var að ræða öryggismálin betur
á næsta fundi. Böðvar kynnti mótsreglur að einföldu en skemmtilegu
lisflugmóti og ákveðið var að nota þær á móti í sumar. Birgir kom með
skemmtilega útfærslu á flóknara listflugskerfi sem hann setti saman sjálfur
á sínum tíma og stefnt er að því að vera með þetta kerfi á einu móti
í sumar. Steinþór kom síðan og kynnti væntanlega árshátíð með
Balsabandinu sem verður annaðhvort 10. eða 17. mars. Samkvæmt
skoðanakönnun á fundinum er mikill áhugi fyrir þessu og ákveðið var að
allir gætu tekið með sér gesti utan félagins (ásamt maka). Félagsmenn
ættu að fjölmenna á þennan skemmtilega viðburð sem mun örugglega lyfta
upp félagslífinu hjá okkur.
Annar félagsfundur Flugmódelfélagsins
Þyts á árinu 2001 verður í Garðaskóla Garðabæ fimmtudaginn 1. febrúar kl. 20:00
Annar félagsfundur ársins verður í Garðaskóla 1. febrúar kl.
20:00. Á dagskrá er kynning á hugmyndum um að félagið kaupi húsnæði
undir félagsheimili (smellið hér til að sjá
teikningar og aðrar upplýsingar), smíðavinnu, fundi og námkeiðahald, sett verði
öryggisgrind fyrir framan flugborð á Hamranesi, létt og skemmtilegt
listflugmót kynnt og Balsabandið kynnir væntanlegt bjórkvöld.
Viljum við efla félagsstarfið og koma upp
félagsheimili með aðstöðu fyrir smíðavinnu, námskeiðahald og
fundastarf?
Félagar í Þyti
hafa framkvæmt ótrúlega stóra hluti
Mikill áhugi og góð
aðstaða til flugs á sumrin:
Ættum við að
byggja upp betra vetrarstarf:
Komið að næstu
kynslóð
Raunhæft dæmi um kaup á húsnæði:
Sem dæmi um þetta mætti nefna 140 fm. húsnæði við Hvaleyrarbraut 41 í Hafnarfirði sem er til sölu á kr. 65.000 á fm. Þetta húsnæði er með lofthæð upp á 4.50 m og því hægt að byggja milliloft og hafa tvær hæðir sem væru þá hvor með um 2.10 m lofthæð. Með þessu væri komið húsnæði á tveimur hæðum sem væru 280 fm að stærð.
Ef þetta húsnæði væri keypt á láni til 30 ára væri greiðslubyrði (miðað við 8% vexti og 4% vísitölu) um kr. 950.000.- á ári og rekstrarkostnaður um kr. 200.000 á ári. Gera mætti ráð fyrir að um 200.000 kæmi í tekjum af námskeiðahaldi (mjög vægt reiknað) og þá stendur eftir kr. 950.000.- eða kr. 79.000 á mánuði. Til að þetta gangi upp þarf aðeins 25 aðila til að leiga pláss og greiða (hver) kr. 3200 á mánuði (kr. 3800 ef ekki væru tekjur af námskeiðshaldi).
Jafnvel hægt að
vinna fyrir mánaðargjaldinu!
Fastur 25 manna
kjarni kominn: Það
besta er að með samstarfi sem þessu er verið að byggja upp 25 manna kjarna
sem alltaf verður til staðar (ef einhver selur, þá kemur annar í staðinn).
Vetrarstarfið mundi vafalaust eflast, möguleiki yrði á fjölbreyttu námskeiðahaldi
og byrjendur í smíði gætu lært af þeim sem hafa meiri reynslu og þekkingu.
Þytur eignist húsið eins og Hamranesið: Eins
og var um aðstöðuna á Hamranesi, þá væri skemmtilegast að geta eftir
einhvern tíma afhennt Flugmódelfélaginu Þyti húsnæðið til eignar. Með
slíku mundi starfsemi félagsins verða fastmótum um alla framtíð og eftir
20 til 30 ár hægt að tala um eitt kraftaverkið í viðbót sem þessum ótrúlegu
Þytsmönnum hefði tekist að afreka.
Ég óska eftir umræðu
um þetta málefni og set mig sem fyrsta aðila á skrá
yfir þá sem vilja skuldbinda sig til að taka þátt í svona verkefni. Fyrir
um ári síðan undirrituðu um 20-25 manns sig á lista þar sem þeir lýstu
yfir vilja til að mál sem þetta væri skoðað nánar. Nú er tækifærið
komið og ég óska eftir að þið takið þátt í umræðunni á póstlistanum
og sendið mér tölvupóst með nafni, heimilsfangi, síma og tölvupóstfangi
á kolaport@islandia.is ef þið hafið
áhuga á að taka þátt í þessu verkefni.
Guðmundur
G. Kristinsson
Fyrsti félagsfundur Flugmódelfélagsins
Þyts sló öll met í aðsókn! Aukin flughæfni
félagsmanna er málefni ársins 2001
Hátt í 40 manns mættu á fyrsta félagsfund ársins og er þetta
ein besta mæting um árabil. Mörg ný andlit voru mætt og góðir gestir frá
Suðurnesjum, Selfossi og víðar. Jón V. Pétursson fór yfir síðasta
blómaskeið módellistflugs á Íslandi sem var fyrir 15-20 árum. Þá voru
haldin íslandsmót á hverju ári samkvæmt FAI reglum og sérhönnuð íslensk
"pattern" vél var raðsmíðuð í 13 eintökum. Hann og Björgúlfur
Þorsteinsson fóru síðan yfir FAI flugferla í listflugi frá þessum tíma
og Björgúlfur kynnti síðan þá þróun sem orðið hefur í þessu
síðasta áratuginn. Gerð var skoðanakönnun á áhuga fundarmanna um aukna
flughæfni og þátttöku í listflugmótum sem viðráðanleg væru fyrir
flesta módelflugmenn. Það má segja að nánast allir á fundinum hefðu
rétt upp hendi og lýst áhuga á þróun í þessum málum. Björn Svavarsson
og Ágúst Bjarnason lýstu sínum hugmyndum og sýn á hvernig hægt væri að
hafa listflugmót þannig að fleiri myndu taka þátt í þeim. T.d. að hafa
forgjafarkerfi (sem byggja mætti á getumælingu samkvæmt stigakerfi)
samkvæmt getu, vera með mismunandi keppnisflokka og fleira. Guðmundur G. Kristinsson formaður félagsins lagði fram tillögu frá stjórn að nýju
stigakerfi til að mæla getu og stöðu hvers módelflugmanns. Ákveðið
var að menn skoðuðu þetta stigakerfi og kæmu á næsta fund með tillögur
til breytinga og athugasemdir. Guðmundur kynnti einnig að sett hefðu verið
þrjú listflugmót á dagskrá í sumar, fyrsta í júni, annað í júlí og
það þriðja í ágúst. Einnig væri stefnt að því að bjóða upp á
bóklegt listflugnámskeið í vor og verklega og munnlega kennslu á Hamranesi
í sumar. Ágúst mætti með fallega Cap lisflugvél og Böðvar var með
tvær gamlar "pattern" vélar Calm og Supra Star, en gaman var að
sjá þarna mun á kynslóðum í módelum sem notuð hafa verið í
módellistflugi. Þeir nefndarformenn sem voru á staðnum fengu afhent
erindisbréf vegna sinna starfa fyrir félagið árin 2000 til og með 2001.
Greinilegt er að ekki þarf að kvarta undan áhuga félagsmanna í byrjun
nýrrar aldar og því bjartar vonir til þess að þetta ár verði blómlegt
í starfi félagsins.
Tillaga að nýju stigakerfi í módelflugi
verður lögð fram á félagsfundi Þyts fimmtudaginn 11. janúar.
Á síðasta ári var mikið rætt um að setja upp stigakerfi í
módelflugi þar sem módelflugmenn gætu fengið mat á sinni stöðu og getu
á hverjum tíma. Stjórn félagsins hefur ákveðið að leggja fram tillögu
að slíku stigakerfi á félagsfundi þann 11. febrúar. Þetta stigakerfi er
tekið úr gömlum gögnum hjá félaginu og talið að höfundur sé Guðjón
Ólafsson (ef einhver veit betur má láta stjórnarmenn vita). Þetta
stigakerfi er hægt að skoða með því að smella
hér.
Fyrsti félagsfundur Flugmódelfélagsins
Þyts verður í Garðaskóla Garðabæ fimmtudaginn 11. janúar kl. 20:00
Fyrsti félagsfundur ársins verður í Garðaskóla 11. janúar kl.
20:00. Á dagskrá er kynning á listflugskeppnum flugmódela með nýju
fyrirkomulagi. Ekki hefur verið keppt í listflugi (samkvæmt reglum FAI) í
nokkur ár og sumir segja að þær keppnir séu erfiðar, fáir sem geti
tekið þátt og að þessar keppnir séu ekki nógu skemmtilegar fyrir
áhorfendur. Fyrsti félagsfundur nýrrar aldar verður því helgaður umræðu
og kynningu á
nýjum hugmyndum um skemmtilega útfærslu á listflugi þar sem flestir hafa
möguleika á að taka þátt. Til að fá nýja fleti á þessu skemmtilega
þætti í módelflugi ætlum við að fá Jón V. Pétursson til að segja frá gömlu góðu FAI
keppnunum, Björgúlfur Þorsteinsson til að kynna nútimaframvæmd slíkra
keppna og Ágúst Bjarnason og Björn Svavarsson til að koma með nýjar
hugmyndir um skemmtilega útfærslur á flugkomum- og keppnum.í módellistflugi
í sumar. Nokkrar gamlar patternvélar og nýlegar skala listflugvélar verða
á staðnum og einnig sýnt gott myndband fyrir þá sem vilja læra að fljúga
öðruvísi en lárétt. Skemmtilegt spjall var í haust á póstlistanum um
þesssa hluti og hægt að sjá þá umræðu með því að smella
hér. Við hvetjum alla félagsmenn til að mæta og taka þátt í
umnræðu um nýja stefnumótun í módellistflugi nýrrar aldar.