Sælir félagar
Þá er nýlokið fyrsta félagsfundi Þyts vorið 2007 í Garðaskóla. Mæting var þokkaleg, 18 manns. Á fundinum var einkum fjallað um tvennt, mót sumarsins og flugvallarmál að Hamranesi. Þorsteinn Hraundal, formaður Þyts setti fundinn. Fyrsta málið var lestur fundargerðar aðalfundar Þyts. Ágúst Bjarnason annaðist lesturinn.
Mót sumarsins
Þorsteinn helstu þætti mótadagskrárinnar:
- Vöfflumótið (Hamranesi) – Ávallt fyrsta laugardag í maí (5. maí) kl. 10:00.
- Kríumótið (Höskuldarvöllum) – Ávallt annan laugardag í maí (12. maí, 13. til vara)
- Íslandsmótið í svifflugi (Gunnarsholti) – Ávallt lokahelgina í júní (30. júní – 1. júlí)
- Þytsdagurinn (Hamranesi) – Ávallt fyrstu helgina í júlí (7. júlí – 8. til vara)
- Listflugmót (Hamranesi) – Dagsetning óákveðin.
Þetta eru þau mót sem þegar hafa verið skipulögð, en til viðbótar má nefna mót á forræði einstakra aðila, s.s. Piper Cub mótið (Pétur), Lendingarmótið (Böðvar) og eflaust koma fleiri góðar hugmyndir frá félögum á komandi mánuðum. Þorsteinn ræddi um þá hugmynd að hafa listflugsmótið flokkaskipt, en þó í einu holli. Þannig geti reyndir vargar og minni spámenn flogið hver á eftir öðrum. Það hristir menn betur saman og gefur þeim óreyndu byr undir báða vængi að spreyta sig á sportinu.
Svifflugsmennirnir Frímann og Guðjón kynntu svifflugsmótin. Þar komu þeir fram með þá hugmynd að breyta Kríumótinu í flugkomu, a.m.k. þetta árið. Allir sem eiga einhver þau flygildi sem geta kallast sviffluga eru hvattir til að taka þátt og prófa þetta með reyndum mönnum. Það verða settar upp stangir svo menn geti prófað hraðaflug og almennt verður stefnt að því að hafa gaman af svifflugi. Þetta mæltist mjög vel fyrir.
Þá kynnti Guðjón þá hugmynd að hafa svifflugsdag að Hamranesi. Þá yrðu engar bensínflugvélar. Þetta verður kynnt nánar síðar.
Hamranes
Þessu næst var rætt um Hamranes. Það er brýnt að laga rafstöðina. Það verður farið í það hið fyrsta, með Erlend og Andrés í broddi fylkingar. Þá þarf að redda nýjum gámi (40 feta) þar sem sá gami er orðinn ónýtur. Gáminn þarf að setja á almennilegar undirstöður. Svo þarf að smíða nýjan skúr utan um Listerinn og steyptar undirstöður undir vélina sjálfa. Þetta gerist ekki nema margir leggist á eitt um að láta það gerast.
Einnig var rætt um að kaupa sólarsellu til að knýja vatnsdæluna. Það yrði gríðarleg bót að því. Málið er í skoðun.
Rætt var um þyrlumál og Hákon endurvakti þá hugmynd að nota hvilftina vestan við húsið (bílastæðið). Það mætti fá nokkra af öllum þeim vörubílafjölda sem keyra mold á tippinn þarna hjá til að sturta efni þarna í og jarðýtu til að jafna þetta út. Svo geta þyrlumenn notað vélarnar sínar til að sá fræjum þarna í. Þetta þarf að ræða og hafa um það samráð við þyrlumenn sérstaklega en vitanlega einnig aðra félagsmenn.
Að lokum vil ég minna á vöfflumótið þar sem verður almennileg tiltekt í húsinu okkar og á svæðinu. Nánari verður tilkynnt síðar um þetta, en reiknið með 5 maí í þetta.
Annað
Nokkur módel sáust á fundinum. Þeir Guðjón og Frímann komu með svifflugur sem þeir sýndu og vöktu verðskuldaða athygli. Ágúst kom með rafstikuna sína (E-Flite Ultra Stick) og lagaði hárgreiðslu viðstaddra óspart og Ófeigur kom með P-51 D Mustang frá Hangover 9. Vélarnar voru skoðaðar og mikið skrafað um heima og geima.
Þá sá Einar Páll til þess að menn gátu gætt sér á kóki og prins póló, svona til að þetta væri nú allt á þjóðlegu nótunum.
Myndir frá fundinum eru hérna.