Hamranes í kjölfar storma

Stormar liðinna vikna hafa heldur betur haft áhrif á aðstöðuna okkar að Hamranesi. Tíðnitaflan er fokin um koll og borðin í pittinum eru sömuleiðis fokin að stórum hluta og komin í tætlur. Það er ljóst að okkar bíður verkefni á vormánuðum við að gera við borðin og festa tíðnitöfluna, en það eru líka hugmyndir um að gera startborð svipuð þeim sem eru á Arnarvelli.

Þau eru mjög góð, því menn sleppa að bogra yfir módelin meðan það er verið að starta og stilla.

Húsið okkar er líka farið að veðrast talsvert og ljóst að þar eigum við líka ærið verkefni fyrir höndum. Stjórnin mun skipuleggja verkið í samráði við góða og fróða aðila og svo verða haldnir vinnudagar þegar sól fer að hækka og hlýnun jarðar fer að virka betur.

hamranes_stor

Stjórn Þyts sendi bæjarráði Hafnarfjarðar formlegt erindi þann 22. nóvember sl. Þar var óskað eftir því að hafin yrði vinna við það hið fyrst að bæta úr málefnum Þyts, enda er orðinn talsverður skaði á svæði okkar með tilkomu fótboltavallarins og haugsins sem er að rísa norðan við okkur. Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs 6. des. sl. og segir þar:

5. 0711176 – Þytur flugmódelfélag, flugvallarsvæði
Lagt fram erindi Flugmódelfélagsins Þyts dags. 20. nóvember 2007 þar sem óskað er eftir því að vinna hefjist sem fyrst við að finna félaginu hentugt landsvæði innan bæjarmarka Hafnarfjarðar.

Bæjarráð vísar erindinu til yfirferðar á skipulags- og byggingarsviði.

Málefni Þyts eru því komin af stað í kerfinu, en hve langt þetta ferli verður er ómögulegt að segja að svo komnu máli. Stjórn Þyts mun hins vegar fylgja erindinu eftir og sjá til þess að það dagi ekki uppi í kerfinu.
Stjórn Þyts óskar félagsmönnum sem og öðrum gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs með mörgum flugdögum og fáum krössum.

This entry was posted in Fréttir. Bookmark the permalink.